| Saga 5.2.2: | Amtmaður yfir landinu öllu var skipaður 21. apríl 1688 og erindisbréf hans var gefið út 5. maí það ár. Skipun amtmanns yfir landinu átti sér nokkuð langan aðdraganda sem rekja má aftur til stjórnkerfisbreytinga sem urðu í danska ríkinu við einveldistökuna 1661.
Einveldið fól í sér að konungur fékk nú einn óskorað vald í hendur yfir þegnum sínum. Einnig varð sú breyting að danska ríkinu var nú skipt í ömt sem hvert um sig skyldi skipað launuðum embættismönnum, svokölluðum amtmönnum. Þar með voru ríkisráðið og hin gömlu stéttaþing afnumin, en í stað þeirra komu stjórnardeildir eða kollegier, sem ýmist voru endurskipulagðar eða nýjar settar á fót. Með þessum breytingum var leitast við að gera stjórnsýslu konungs miðstýrðari og fastmótaðri.
Þannig höfðu stjórnkerfisbreytingarnar í för með sér að skrifræði fór vaxandi og öll innheimta tekna og eftirlit var aukið. Annað markmið þessara breytinga lá í þeirri hugsjón að stuðla að bættu réttarfari og samræmdum réttarreglum fyrir danska ríkið í heild. Stjórnardeildirnar tóku til umfjöllunar málefni ríkisins, gerðu tillögur þar um og báru þær undir konung til undirritunar eða endanlegs úrskurðar. Tvær helstu stjórnardeildir konungs voru kansellí og rentukammer. Kansellíið hafði frá fornu fari annast dagleg stjórnarstörf og hafði nú með höndum stjórnsýslu konungs, dóms-, kirkju- og kennslumál en rentukammerið, fjármáladeild konungs, fjallaði um atvinnumál og fjármál. Þetta voru þær tvær stjórnardeildir sem embættismenn á Íslandi áttu sín samskipti við um málefni landsins. Breytingar á stjórn Íslands innan danska ríkisins áttu sér stað í nokkrum skrefum frá dauða Henriks Bjelkes höfuðsmanns og síðasta lénsherra konungs á Íslandi, 1683, og fram til þess að amtmaður var skipaður árið 1688. Landfógeta yfir Íslandi var veitt erindisbréf 16. maí 1683. Leysti hann þar með fógeta lénshérrans Bjelke af hólmi. Skyldi meginstarf landfógeta felast í því að hafa umsjón með konungseignum, innheimtu konungstekna og nákvæmum skilagreinum þar um, ásamt eftirliti með verslun og fiskveiðum. Einungis tæpu ári síðar, 26. janúar 1684, var síðan stiftamtmaður eða stiftbefahlingsmann, skipaður yfir Ísland. Kom hann í stað höfuðsmanns áður sem æðsti fulltrúi konungsvalds á Íslandi og sat í Kaupmannahöfn. Í þetta embætti stiftamtmanns valdist fyrstur manna 5 ára gamalt barn, launsonur konungs, Ulrik Christian Gyldenløve að nafni. Í stað hins unga yfirmanns stiftisins Íslands þurfti því að setja annan mann til að annast embættisverkin. Af því varð hins vegar ekki fyrr en árið 1688 eins og áður sagði og nefndist sá amtmaður. Tók amtmaður nú við sem fulltrúi stiftamtmanns hér á landi og æðsti embættismaður innanlands.
Amtmenn yfir Íslandi: Christian Müller 1688-1718 Niels Fuhrmann 1718-1733 Joachim Henriksen Lafrentz 1733-1744 Johan Christian Pingel 1744-1752 Magnús Gíslason 1752-1766 Ólafur Stephensen 1766-1770.
Heimild: Nanna Þorbjörg Lárusdóttir. Skjalasafn amtmanns yfir landinu öllu 1688-1770. Embættið og uppbygging skjalasafnsins. Reykjavík, 2011. Bls. 6-7. |